Stytting menntaskólans og andleg áhrif

Nám til stúdentsprófs var stytt úr fjórum árum í þrjú ár haustið 2015, og fór strax í gang mjög sterk umræða hvort þetta væri til hins betra eða ekki. 

Margir einstaklingar eiga ekki í neinum vandræðum með að klára framhaldsskóla á þremur eða jafnvel tveimur og hálfu ári, og er það bara æðislegt. Þegar ég var í menntaskóla á sínum tíma voru margir jafnaldrar mínir sem kláruðu fyrr en aðrir sem þurftu öll fjögur árin sem í boði voru þá og það breytti einhvern veginn engu máli þó að sumir þyrftu sinn tíma. Samfélagið segir okkur að koma til móts við alla einstaklinga eins og þeir eru alla leik- og grunnskólagöngu hvers og eins en svo bara fýkur sú hugsun út um gluggan þegar komið er upp í framhaldsskóla, sem er fáránlegt. 

Með styttingunni er svolítið að vera að setja pressu á alla unglinga að klára á þeim tíma sem bara þeir sem áttu auðveldara með nám voru að klára á hérna áður, og því skapast ákveðin skömm við að þurfa að „lengja“ námið sitt í fjögur ár ef þörf er á því. Staðreyndin er bara sú að sumir þurfa lengri tíma og það á ekki að vera nein tímapressa á þessu skólastigi. 

Sumir unglingar þurfa oft að vinna með námi eða sinna einhverjum tómstundum og svo er félagslíf á þessum tíma svo ótrúlega mikilvægt fyrir andlegan þroska. Það getur verið svo ótrúlega mikið forvarnargildi í því að stunda tómstundir eða íþróttir og er það oft öflugasta leiðin til þess að byggja upp félagsleg tengsl við aðra unglinga. Álagið hlýtur því að vera gríðarlegt fyrir suma unglinga með tilkomu styttingarinnar og hjálpar líklega ekki ef námsörðugleikar eða andleg veikindi eru til staðar fyrir. 

Það þarf ekki að leita lengra en í skýrslu Menntamálastofnunnar frá árinu 2018 þar sem segir að 752 nemendur hafi hætt í framhaldsskóla fyrir jólapróf 2017 og voru þar af 141 nemandi sem sagði það vera vegna andlegra veikinda. Í skýrslu frá mennta- og menningarmálaráðherra sem birt var vorið 2020 kom svo í ljós að nemendur sem voru að útskrifast það ár úr þriggja ára kerfinu voru að útskrifast með lægri einkunnir en þeir sem voru að útskrifast á fjórum árum árin áður. Hvað segir það okkur?

Það þarf að vera í boði að fá að velja án þess að þurfa að skammast sín fyrir að þurfa meiri tíma en einstaklingurinn við hliðina á manni. Þessi tímapressa er svo óþörf. Þeir sem vilja klára á styttri tíma eiga bara að fá að gera það í friði og það sama gildir um þá sem þurfa lengri tíma, alveg sama hver ástæðan fyrir því er.