Ryan Reynolds, einn af eigendum velska liðsins Wrexham AFC, mótmælir á Twitter ákvörðun Vanrama National League að banna streymi á leikjum deildarinnar.
Ryan Reynolds, sem er best þekktur fyrir sína túlkun á andofurhetjunni (e. anti-hero) Deadpool, keypti liðið árið 2020 ásamt sjónvarps leikaranum Rob McElhenney, sem er best þekktur fyrir leik sinn og skrif í þáttunum It’s Always Sunny in Philadelphia. Á þeim tíma var Wrexham í fjárhagslegum erfiðleikum og horfði fram á gjaldþrot. Það var þá sem að amerísku leikarnir tveir tóku sig til og keyptu liðið.
Undanfarna mánuði hefur Wrexham verið á mikilli uppleið og má segja á stórstjörnurnar hafi heldur betur hrist upp í klúbbnum. Stjörnurnar hafa lagt mikla áherslu á að koma nafni klúbbsins til sem flestra með frumlegum auglýsingum og skemmtilegum samstörfum. Klúbburinn kom fram í þáttum McElhenney It’s Always Sunny in Philadelphia og er eina liðið í fjórðu deild enska boltans sem hægt er að spila í tölvuleiknum FIFA 22.
Það er því greinilegt að aðgengi almennings að klúbbnum skiptir Reynolds og Mcelhenney miklu máli. Þá er auðvelt að skilja þessi ummæli Reynolds á Twitter.