Zetan – hvað er það?

Zetan er netfréttamiðill sem stjórnað af ungu fólki fyrir ungt fólk. Hugmyndin að Zetunni fæddist í miðjum heimsfaraldri þar sem ungt fólk var í minni tengingu við heiminn en nokkurn tímann áður. Á þessum tímum var ungt fólk skikkað til að vera heima hjá sér í tímum á Zoom, þau fengu ekki að halda böll, eða jafnvel að mæta í félagsmiðstöðina sína. Persónuleg samskipti áttu sér nánast eingöngu stað á netinu. Netið getur verið frábær staður til að vera á en stofnendur Zetunnar tóku eftir því að það voru fáir staðir sem sameinuðu raddir íslenskra ungmenna. Áhugaverðar hugleiðingar og upplýsingar frá ungu fólki fóru að birtast á samfélagsmiðlum eins og Instagram og TikTok, og sama með skaðlegar hugmyndir og upplýsingar. Vildum við þess vegna búa til vettvang þar sem ungt fólk getur sameinað krafta sína og látið í sér heyra á jákvæðan og aðgengilegan hátt. 

Zetunni er stýrt af ritstjórn sem er nú skipuð af fimm aðilum. Elín Lára er framkvæmdastjóri Zetunnar en hún starfar einnig hjá Samfés, samtökum félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi sem er stærsti bakhjarl verkefnisins. Elías Snær er fréttastjóri Zetunnar en hann sér til þess að birt sé frétt a.m.k. einu sinni á dag til þess að halda vefnum lifandi. Jónína Ósk er fréttaritari, hún sér um það að skrifa fréttir og almennu viðhaldi. María Lind er hönnuðurinn okkar en hún hannaði fallega logo-ið okkar og setti upp vefsíðuna. Síðast en ekki sístur er hann Sigurjón Þór, en hann er markaðsfulltrúi Zetunnar. 

Zetunni er samr ekki aðeins við í ritstjórn heldur hvetjum við alla til að taka þátt; þú getur stofnað klúbb í félagsmiðstöðinni eða ungmennahúsinu þínu þar sem þið getið fengið stöðuna “fréttaritari á vettvangi”. Þið getið þannig sent inn efni um lífið sem ung manneskja í ykkar sveitarfélagi. Ef þú hefur ekki aðgang að öðru hvoru þessu þá er vefurinn alltaf opinn fyrir innsent efni! Hvort sem það er vídjó, podcast eða grein búin til af ungu fólki þá er vefurinn opinn þér. 

Við treystum því og trúum að þetta verkefni geti leitt saman ólíka landshluta og heiðri þannig kynslóðina sem fórnaði svo miklu í heimsfaraldri. Hlökkum til að heyra í ykkur!