Einelti þrífst á miðstigi grunnskóla vegna skorts á þjónustu. Þetta kemur kannski ekki mörgum á óvart en hvað erum við að gera í þessu?
Það að hoppa upp um skólastig er stórt skref í lífi hvers barns og reynir mikið á félagslegu hliðina og andlegan þroska. Mörg börn hafa verið í þeirri rútínu frá 6 ára aldri að þau mæta daglega í skólann snemma á morgnanna og sækja svo frístund beint eftir skóla þar sem vel er haldið utan um skipulag, boðið er upp á fjölbreyttar smiðjur og skemmtilega afþreyingu. Mörg börn stunda sínar íþróttir og/eða aðrar tómstundir í fyrstu bekkjum grunnskóla og halda því áfram út sína grunnskólagöngu á meðan aðrir hafa ekki áhuga á hinum ýmsu tómstundum sem nútímasamfélag hefur upp á að bjóða og þar að leiðandi skerðist sá aðgangur að þeim félagsskap sem kemur með skipulögðu tómstundastarfi. Félagsmiðstöðvar eru því mjög mikilvægar þegar kemur að því að efla félagslegan þroska og jálvæð samskipti við jafnaldra. En það að fara frá því að mæta fimm sinnum í viku í skipulagt frístundastarf, sem foreldrar skrá börnin sín í fyrirfram, yfir í að mega ráða hvort þau mæti tvisvar í viku, tvo tíma í senn, í félagsmiðstöð þar sem starfið er meira lagað að unglingum getur verið mjög kvíðavaldandi. Það að félagsmiðstöðvar skuli vera aðgengilegar fyrir 5.-7. bekk er frábært en 10-12 ára börn eru ennþá bara börn og þurfa meira utanumhald en unglingar. Það þarf að aðlaga þetta ferli betur að þessum aldurshóp svo að það hafi ekki áhrif seinna meir, t.d. á unglingsárunum þegar starfsemi félagsmiðstöðva er svo ótrúlega mikilvæg á viðkvæmum tíma.
Allar reglugerðir og verklagsreglur sem snúa að starfsemi félagsmiðstöðva í dag fjalla um starf með unglingum, enda ótrúlega viðkvæmur og meðtækilegur aldur sem þarf á þessu forvarnar- og tómstundastarfi að halda, en þessi yngsti aldurshópur sem á rétt á að sækja félagsmiðstöðvarnar má ekki gleymast. Í einhverjum tilfellum er starfsfólk ráðið inn til að vinna með og eiga jákvæð samskipti við unglinga, og það er þá það eina sem það kann og er gott í, en er þá aftur á móti kannski ekki tilbúið til að “passa” eða sjá um yngri krakkana sem sækja félagsmiðstöðvarnar og verður þetta því bara leiðinlegur og fráhrindandi staður fyrir alla. Hvað geta félagsmiðstöðvar gert í þessum málum, því þetta þarf að bæta?